Stjórnarfundur í félagi sumarhúsaeigenda í Hvammi haldinn í húsnæði KPMG, Borgartúni 27, 27.01.2015

Mættir: Alexander Edvardsson, Andri Árnason, Arnar Jónsson, Bárður Sigurgeirsson, Ingibjörg Skúladóttir, Skúli Már Sigurðsson

Fulltrúar lóðanna Hvammsskógur 30 og 32 (F3032): Hörður Harðarson, Sigurgeir Bárðarson og Jenný Axelsdóttir.

Félaginu hefur borist bréf frá Karli Axelssyni hæstaréttarlögmanni f.h. eigenda ofangreindra lóða, þar sem því er mótmælt að framkvæmdir við lagningu göngustígs á milli lóðanna skulu hafa verið hafnar án samráðs við eigendur lóðanna.

Bréfið má sjá hér.

Tilgangur þessa fundar er að leita lausna á málinu og fá fram hugmyndir eigenda lóða nr. 30 og 32.

F3032 gerðu athugasemdir við að ákveðið hefði verið að svara ekki efnislega bréfi Karls Axelssonar. Bentu þeir á að mikilvægt væri að afstaða stjórnarinnar komi fram til þeirra spurninga sem Karl Axelsson setur fram í bréfinu. BS gerði einnig athugasemd við að haldinn hefði verið stjórnarfundur að honum fjarstöddum vegna þess að þrír stjórnarmeðlimir fóru fram á að fundinum yrði frestað svo hann ætti kost á að sitja fundinn. Benti BS á að þessi vinnubrögð væru ekki í samræmi við “praxis” þar sem alltaf hefur verið fundinn nýr fundartími ef 2 stjórnarmeðlimir komast ekki á fund.

Hjá F3032 kom fram að forsaga málsins væri sú að þegar umræddar lóðir voru seldar hefðu væntanlegir kaupendur ekki verið upplýstir um umræddan göngustíg, heldur hefði þeim verið sagt að þarna hefði verið göngustígur á fyrra skipulagi sem hefði verið felldur niður. Allt skipulag lóðanna, þar með talin staðsetning bústaða og annarra bygginga, hefur tekið mið af því að ekki yrði lagður göngustígur á milli húsanna. Staðsetning stígsins er því sérstaklega íþyngjandi fyrir eigendur lóðanna. Liggur stígurinn í jaðri bílaplans annarrar lóðarinnar með beinni sjónlínu í útdyrahurð og stutt frá sólpalli og aðal útvistarsvæði hinnar lóðarinnar.

F3032 mótmæltu að framkvæmdir við umræddan stíg hefur verið hafnar á meðan frestur sem þeir höfðu fengið til að leggja fram hugmyndir um lausn málsins var enn í gildi. Upplýstu þeir að áður en framkvæmdir voru hafnar á lóðum þeirra unnu þeir að því að leysa málið í sátt og samlyndi við íbúa svæðisins. Höfðu þeir komið sér saman um að kosta kaup á lóð sem mætti nýta til lagningar á göngustígs. Mögulegt hefði verið að leggja stíginn á lóðina miðja þannig að ekki yrði ónæði á aðliggjandi lóðum. Eftir framkvæmdir hófust á lóðum þeirra án þeirra vitneskju hafa þeir ekki séð ástæðu til að aðhafast frekar.

BS benti á að óheppilegt sé að félagið fari offari í framkvæmdum. Mikilvægt sé að framkvæmdir sem félagið telur nauðsynlegt að ráðast í fari fram með vitneskju og samþykki lóðareigenda. Ef ekki næst sátt þarf í það minnsta að afla framkvæmdaleyfis. Minnt er á að áður hefur verið stofnað til harðvítugra deilna í svipuðu máli þegar félagið hóf framkvæmdir á sumarhúsalóð án vitneskju og samráðs viðkomandi sumarhúsaeiganda. Í það skipti sat sumarhúsafélagið uppi með kostnað vegna viðgerða á lóðinni. Staðan er enn sú að viðkomandi sumarhúsaeigandi telur sig ekki geta notið þess að vera á svæðinu vegna árása sem hann telur sig hafa orðið fyrir af hendi félagsins.

F3032 töldu núverandi vanda mega fyrst og fremst rekja til gallaðs skipulags. Má þar helst telja eftirtalin atriði:

1. Eystri göngustígurinn (austan við Hvammsskóg 2) er svo brattur að hann er ógöngufær, enda er hann ekkert notaður. Er auk þess yfirvaxinn af illgresi og ófær. Ef hann verður ekki lagfærður hefur það í för með sér óeðlilega mikla umferð um fyrirhugaðan göngustíg á milli Hvsk. 30 og 32. Því er farið fram á að þessi stígur verði lagfærður. Líklegt er að landlagsarkitekt þurfi að koma að því.

2. Góður eystri göngustígur mun leysa málið fyrir flesta íbúa svæðisins. Lengingin er mest fyrir þá íbúa sem búa austast á Hvammi, en þar lengist gönguleiðin um 300 metra.

3. Skortur á sameiginlegum reitum. Þeir sameiginlegur reitir sem eru á svæðinu eru illa skipulagðir. Gert er ráð fyrir sameiginlegu útivistarsvæði inni í skóginum í ræmu í kringum eina lóðina. Sama gildir um útivistarsvæði barna. Einnig er gert ráð fyrir sameiginlegu svæði í kringum gilskorninga. Einnig er gert ráð fyrir sameiginlegu svæði fyrir neðan Hvammsbæinn. Engin tenging er við það svæði nema að farið sé upp á þjóðveg. Verði eystri stígur lagfærður má gera ráð fyrir að sú tenging batni.

4. Ekki gert ráð fyrir neinu sameiginlegu svæði við vatnið nema fyrir neðan Hvammsbæinn (sem er óþægilega langt í burtu). Ef borið er saman við aðliggjandi svæði í Dagverðarnesi og Vatnsenda eru opin svæði við vatnið sem allir geta nýtt til útivistar og til þess að setja út báta. Að auki er það svæði slitið frá svæðinu þannig að þörf er á að ganga þjóðveginn eða fjöruna til að komast á það svæði.

5. Skortur er á svæði í kringum stíginn. Á öðrum göngustígum á svæðinu er nokkra metra svæði í kringum hvern stíg, þannig að stígarnir liggja ekki beint á landmerkjum og eru því ekki eins íþyngjandi.

6. Sameiginleg svæði sem þegar eru á skipulagi eru nánast ónýtanleg. Eru í kringum gilskorninga og mynda hring í kringum lóðir sem eru í skóginum. Mynda ekki sameiginlega heild, heldur smá bleðlar á víð og dreif á svæðinu.

Fulltrúi lóðar 32 benti á að töluverð umferð hefði verið um akveg á lóð 32 s.l. sumar. Benti hann á að sérstaklega hefði verið ónæði af ferðum fólks að kvöldi til og fram yfir miðnætti. Þetta hefði leitt til töluverðs ónæðis, auk þess sem ströndin fyrir neðan lóð 30 og 32 var nýtt sem útivistarsvæði.

F3032 lögðu til eftirtaldar lausnir:

1. Skipulagsmál svæðisins verði endurskoðuð í heild sinni með það að leiðarljósi að finna lausnir sem henta öllum.
2. Eystri stígurinn verði lagfærður þannig að hann verði göngufær og bætt tenging við sameiginleg svæði.
3. Tekin verði afstaða til þeirra sameiginlegu svæða sem þegar hafa verið skipulögð. Að mati F3032 er þau vart nýtanleg nema sem land (stuðpúði) í kringum núverandi göngustíga).
4. Keypt verði nýtt land sem geti nýst sem sameiginlegt svæði og undir göngustíg. F3032 hafa lýst því yfir að þeir séu tilbúnir til að koma að þeirri lausn.

AA benti á að göngustígar sú fljótir að hverfa í gróður og valdi þá minni röskun. Hins vegar sé þetta mál það stórt að aðalfundur þurfi að taka málið upp. Samþykkt var að vísa þessu máli til aðalfundar.


Bárður Sigurgeirsson ritari


Daginn eftir fundinn barst tölvubréf frá Ingibjörgu Láru Skúladóttur þar sem hún segir sig úr stjórn félagsins. Sem ástæðu gefur hún upp “þann ágreining sem uppi er í stjórninni um gerð göngustígs á sumarbústaðarsvæðinu og að hún hafi ekki verið sátt hvernig staðið hefur verið að málum”.


© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband