Opið bréf til sumarbústaðaeigenda í Skorradal í Borgarfirði. Til alvarlegrar umhugsunar fyrir alla!

Vegna flugeldaskothríðar í landi Dagverðarness laugardaginn 26. Mars, fyrir páska.

Ágæti viðtakandi.

Um klukkan 22:00 að kvöldi laugardagsins 26. Mars, s.l. fékk undirritaður símtal frá aðila sem staddur var í Skorradal og tilkynnti viðkomandi að í þeim töluðu orðum stæði yfir flugeldaskothríð, að honum sýndist í Dagverðarneslandi vestanverðu nærri Hvammi og vildi hann deila áhyggjum sínum með undirrituðum, sem fór strax áleiðis fram í Skorradal til þess að reyna að staðsetja skothríðina ef hún hefði haldið áfram og að hafa hendur í hári þess vanvita sem þarna var að verki og ógnaði ótvírætt öryggi og eignum þess fólks sem var þá statt í Skorradal.
Undirritaður hafði einnig samband við lögregluna í Borgarnesi og greindi henni frá málavöxtum og einnig var haft samband við 112 neyðarlínu og þeir beðnir um að koma boðum til vakthafandi fulltrúa almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra varðandi það að senda sms boð á alla gsm síma sem staddir væru í Skorradal á þessum tíma.

Með þeim boðum að allir sem boðin fengju sýndu sérstaka aðgát varðandi alla meðferð á eldi þar sem miklir þurrkar væru, og einnig að öll notkun flugelda væri stranglega bönnuð“

Síðar kom í ljós að boðkerfið var bilað þá stundina og engin boð bárust út, þessu hefur nú snarlega verið kippt í liðinn og á kerfið að virka.
Gefum okkur nú það að eldur hefði orðið laus í gróðri af völdum þessara flugelda sem skotið var upp þarna í Dagverðarneslandi, eins og hefur raunar gerst ekki fyrir svo löngu síðan í landi Hvamms og að þurft hefði að rýma dalinn með boðkerfið bilað. Hugsi nú hver og einn fyrir sig um þetta og hverjar afleiðingarnar hefðu geta orðið.

Það sem undirritaðan undrar hvað mest er þó það algera skeytingarleysi og doði sem fólk almennt virðist haldið og hafa gegn öðrum aðilum sem augljóslega ógna öryggi og eignum þess með ólöglegu og glæpsamlegu framferði eins og þarna var við haft og vill undirritaður hér með skora á alla þá sem þetta bréf berja augum að að opna nú augun og láta það sig varða hvað aðrir aðhafast ef það getur augljóslega haft þær alvarlegu afleiðingar í för með sér að eigna-og manntjón geti af hlotist. Það er ekki svo að ekki hafi verið fjölmennt í dalnum um páskanna, ljós var nánast í hverjum bústað.

Hafið strax samband við 112 neyðarlínu og fáið samband við lögreglu og tilkynnið um slíkt athæfi eins og hér hefur verið fjallað um þar sem eignir og líf fólks geta verið í húfi.

Samrit af bréfi þessu er sent á alla formenn félaga sumarbústaðaeigenda í Skorradal til dreifingar á félagsmenn þeirra og einnig á eftirtalda:

• Oddvita Skorradalshrepps.
• Lögreglustjórann á Vesturlandi.
• Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.


Virðingarfyllst. Bjarni K Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð.
© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband