Bæta þarf brunavarnir í Skorradal

Skorradalshreppur er hvattur til að vinna markvisst að uppbyggingu vatnslagna til slökkvistarfs í sumarbústaðahverfum og einnig að því að auðvelda aðkomu slökkvibíla að Skorradalsvatni til vatnstöku. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í drögum að viðbragðsáætlun almannavarna vegna gróðurelda í Skorradal.

Sveitarfélagið er jafnframt hvatt til að láta fara fram úttekt á vegum/slóðum um frístundahúsasvæðin, breidd þeirra og burðarþoli. Miðað sé við að fullhlaðinn slökkvibíll geti komist auðveldlega um svæðin á ársgrundvelli og gerð verði viðeigandi snúningsplön. Þá verði gerð framkvæmdaáætlun sem sett verði inn í viðbragðsáætlunina um hvernig jarðeigendur vinni að framgangi þessara mála.

Áætlunin miðar að gerð verði gangskör að því að bæta úr brunvörnum á svæðinu. Ljóst er að mikil hætta getur skapast þegar eldur kviknar líkt og gerðist um síðustu helgi. Þá kviknaði mikill sinueldur í landi Hvamms í Skorradal og var allt tiltækt slökkvilið sent á staðinn. Betur fór en á horfðist.

Viðbragðsáætlunin sú fyrsta sinnar tegundarÍ gærkvöldi hélt almannavarnanefnd Borgarfjarðar og Dala fund með hagsmunaðilum á svæðinu, m.a. fulltrúum frá sveitarfélaginu og jarðeigendum, í tengslum við gerð viðbragðsáætlunarinnar. Theodór Þórðarson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Borgarfirði og Dölum, segir í samtali við mbl.is, að viðbragðsáætlunin verði tilbúin innan fárra vikna og hún kynnt í vor.

Hann segir að áætlunin sé sú fyrsta sinnar tegundar, en hún byggir á viðbragðsáætlanagrunni almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Stefnt verði að því að endurskoða hana árlega og yfirfara hvað hafi áunnist og hvað megi betur fara.

Theodór segir að það hafi komið fram á fundinum í gær, að sumarbústaðahverfi á Íslandi séu að vissu leyti munaðarlaus. „Fólk er að borga skatta og skyldur og fara eftir ýmsu. En það er ekkert um það í skipulagslögum að það eigi að tryggja öryggi fólks og flóttaleiðir.“ Það
hnotskurn v
anti t.d. reglur um brunavarnir eða burðarþol vega.

Samhljómur sé um að því sé beint til viðkomandi yfirvalda að það sé tekið á þessum vanda, tryggja öryggi fólks og að hugað sé að eldvörnum strax í upphafi. Þá sé mikilvægt að allir séu meðvitaðir um mikilvægi fyrstu viðbragða.

Hann bendir á að það séu yfir 600 bústaðir í Skorradal og þegar mest lætur geti mörg þúsund manns verið á svæðinu.

Neyðarbúnaður sé til staðar í bústöðumÍ sérstökum kafla áætlunarinnar um mótvægisaðgerðir, sem vísað var í hér að ofan, eru bústaðaeigendur í Skorradal hvattir til að koma sér upp viðeigandi neyðarbúnaði, t.d. slöngum sem nái hringinn í kringum bústaðinn. Fari eftir reglum varðandi einnota grill, varðelda og skotelda. Stundi virka nágrannavörslu.

Lagt er til að í hverju sumarhúsi sé eitt til tvö slökkvitæki til staðar á aðgengilegum stað, þau yfirfarin reglulega og í lagi. Einnig að til sinuklöppur séu til staðar, vel búinn sjúkrakassi og að reykskynjarar séu í hverju herbergi.

Þá er mælst til að lögreglan auki eftirlit með bústaðasvæðum í Skorradal, sérstaklega á „hættutímum“. Sinni eftirliti og eftirfylgni með leyfðum og óleyfðum varðeldum, skoteldasýningum og brennuleyfum sinuelda í Skorradal og nágrannasveitum.

Markmiðið að áætlunin verði aldrei virkjuðTheodór segir að hlutverk sveitarfélagins sé stórt og ábyrgð þess mikil hvað varðar þessi mál. Hann tekur ennfremur fram, að ábyrgð landeigenda og eigenda sumarhúsa sé ekki síður mikil. Mestu máli skipti að ná öllum saman um það að aldrei þurfi að virkja viðbragðsáætlunina þó að hún sé til.

Þá eru uppi hugmyndir hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að yfirfæra áætlunina yfir á önnur sambærileg sumarbústaðasvæði þar sem mikil hætta getur skapast vegna gróðurelda að sögn Theodórs.

mbl.is sagði frá
© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband