Framtíð Hreppslaugar ógnað vegna fjárhagserfiðleika

Nú er svo komið að framtíð Hreppslaugar er ógnað vegna fjárhagsörðuleika. Við birtum hér bréf frá stjórn ungmennafélagsins Íslendings þar sem leitað er eftir fjárstuðningi frá sumarhúsaeigendum. Hugmynd þeirra er 30 þús. kr stuðningur sem innifelur 30 heimsóknir í Hreppslaug. Vefstjóri telur þetta nokkuð háa upphæð og leggur til að upphæðin verði lækkuð og skiptum fjölgað.
Fyrir 85 árum síðan var unnið stórafrek hér í sveit þegar ráðist var í byggingu stórrar steinsteyptrar laugar af félögum í Ungmennafélaginu Íslendingi og er engum blöðum um það að fletta að byggingin ber vott um mikinn stórhug og þann mikla kraft sem bjó í ungmennahreyfingunni í byrjun tuttugustu aldarinnar. Þegar laugin var byggð lögðust margir á eitt með sjálfboðavinnu og fjárframlögum. Allt efni var flutt á hestvögnum að lauginni eftir að því hafði verið siglt til Skeljabrekku í mikilli ævintýrasiglingu þar sem óttast var um að bæði bátur og prammi myndu sökkva. Við enda laugarinnar voru byggðir þrír klefar; karla, kvenna og hesta því allir komu jú ríðandi í laugina.

Laugin hefur allar götur síðan gegnt mikilvægu hlutverki í sveitinni. Fyrir utan að ylja sveitungum og öðrum gestum sem og að kenna þeim sund, hefur við laugina verið starfrækt mikið félagsstarf, bókasafn sveitarinnar var þar til húsa, barnakennsla og eitt sinn mötuneyti fyrir tjaldbúðir. Einnig var þar starfrækt spunaverksmiðja í einum klefanum þar sem bændur komu með lopann úr ullinni sinni og létu spinna band úr sinni eigin ull sem var mikið hagstæðara en að kaupa nýtt. Það má því með sanni segja að Hreppslaug hafi verið miðpunktur sveitarinnar! Á undanförnum árum hefur sundlaugin einnig verið vinsæll samkomustaður sveitunga og gesta, einkum að kvöldi til en kvöldopnunin hefur einmitt skapað lauginni nokkra sérstöðu og ef af opnun verður í sumar eins og vonir standa til er stefnt að því að hafa opið til klukkan ellefu að kvöldi. Önnur sérstaða þessarar laugar er hið sírennandi heita vatn úr uppsprettum rétt ofan laugarinnar svo og hið náttúrulega umhverfi með birkivaxinni grasbrekku nánast að laugarbarmi.
Hreppslaug

Frá byggingu laugarinnar hefur mikið vatn runnið til sjávar og nú er svo komið að þessi fornfræga laug er í miklum kröggum. Rekstur laugarinnar hefur alla tíð verið í höndum Umf Íslendings sem er lítið félag með einungis 188 félagsmenn. Eftir síðasta sumar bar svo við að reksturinn skilaði miklu tapi og situr nú þetta litla ungmennafélag uppi með rúmlega 700 þúsund króna tap. Þetta hefur steypt framtíð laugarinnar í mikla óvissu og að öllu óbreyttu mun þetta hafa þær afleiðingar að laugin mun ekki verða opnuð amenningi í sumar nema fé safnist til rekstrar laugarinnar.

Til að forða lauginni frá lokun hefur UMF Íslendingur lagt mikið kapp á að finna leiðir til að tryggja áframhaldandi rekstur laugarinnar án þess þó að það stofni fjárhag félagsins í hættu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir ungmennastarf félagsins. Ljóst er að til þess að það megi takast þarf utanaðkomandi fjármagn og hefur því verið stofnuð Hreppslaugarnefnd sem hefur það hlutverk að safna fé og vinna að framtíðarsýn laugarinnar.

Þar sem algengt er að sumarhúsaeigendur í Skorradal séu gestir laugarinnar hefur nefndin komið með þá hugmynd að bjóða sumarhúsaeigendum að styrkja laugina um 30 þúsund krónur og fá í staðinn afhent 30 miða kort í laugina sem nota má í sumar. Einnig óskar nefndin eftir stærri fjárframlögum fyrirtækja sem nota mætti til þess að bæta aðstöðu laugarinnar. Myndu fyrirtækin þá verða bakhjarlar Hreppslaugar og nafni fyrirtækisins komið fyrir á vegg í anddyri laugarinnar. Í báðum tilvikum fengi viðkomandi kvittun/reikning sem hægt væri að nota til frádráttar skatts eftir atvikum.
Við vonum að brugðist verði við neyðarkalli þessu og þar með að tryggt verði að Hreppslaug haldist áfram opin.

Meðlimir Hreppslaugarnefndar,
Gauti Jóhannesson Efri-Hrepp s. 8475740
Sigtryggur Veigar Herbertsson Hvanneyri s. 8407192
Fjóla Benediktsdóttir Mófellsstaðakoti s. 8477725
Arnar Hólmarsson Hvanneyri s. 8613515

© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband