Ljósmyndasýning í Gallerí Fjósakletti

Jóhann Páll Valdimarsson, bókaútgefandi og ljósmyndari, opnar ljósmyndasýningu sína, Skorradalur og nágrenni, í Gallerí Fjósakletti að Fitjum í Skorradal í dag kl. 15:00. Sýningin verður opin daglega til 10. september og rennur allur ágóði af sölu myndanna til endurgerðar pakkhússins í Vatnshorni, elsta húsinu í Skorradal.
Á sýningunni verða myndir sem Jóhann Páll tók í Skorradal og næsta nágrenni. Hann segist alltaf hafa haft mikinn ljósmyndaáhuga og eftir að hann eignaðist hús í dalnum hefur hann mikið farið út og myndað umhverfið. „Ég er að breytast í sveitamann og er orðinn hálfgerður Skorrdælingur. Taugar mínar til dalsins eru mjög sterkar og þessi sýning er óður til Skorradals.“

Jóhann Páll Valdimarsson, bókaútgefandi og ljósmyndari, opnar ljósmyndasýningu sína, Skorradalur og nágrenni, í Gallerí Fjósakletti að Fitjum í Skorradal í dag kl. 15:00. Sýningin verður opin daglega til 10. september og rennur allur ágóði af sölu myndanna til endurgerðar pakkhússins í Vatnshorni, elsta húsinu í Skorradal.
Á sýningunni verða myndir sem Jóhann Páll tók í Skorradal og næsta nágrenni. Hann segist alltaf hafa haft mikinn ljósmyndaáhuga og eftir að hann eignaðist hús í dalnum hefur hann mikið farið út og myndað umhverfið. „Ég er að breytast í sveitamann og er orðinn hálfgerður Skorrdælingur. Taugar mínar til dalsins eru mjög sterkar og þessi sýning er óður til Skorradals.“

Hann segist vera mikið fyrir drama og noti gjarnan skýjafarið til að undirstrika dramað. „Ætli ég sé ekki svolítið að reyna að fanga dramað og fegurðina í dalnum. Rétt eins í öðrum myndum mínum er ég á höttunum eftir drama.“

Jóhann segist hafa ákveðið að halda sýninguna í dalnum bæði vegna tengsla sinna við hann en auk þess dáðist hann að framtaki systkinanna Huldu og Jóns sem búa inni á Fitjum og hafa unnið þar mikið uppbyggingarstarf. Þau hafa meðal annars innréttað gallerí í gamla fjósinu, Gallerí Fjósaklett. „Þau vinna alveg gríðarlega gott starf í dalnum og þegar mér bauðst að sýna þar fannst mér það tilvalið. Ég vil bara leggja mitt af mörkum og styðja við bakið á dalnum og mannlífinu öllu.“

Skorradalur og nágrenni er önnur ljósmyndasýning Jóhanns Páls en 18. júní síðastliðinn var sýning hans, Authors and Landscapes of Iceland, opnuð í New Iceland Heritage Museum í Gimli, Manitoba. „Ég hef verið mjög feiminn við að sýna myndirnar mínar. Ætli ég sé ekki bara spéhræddur,“ segir hann og hlær.

Jóhann Páll býður alla velkomna að vera viðstadda opnun sýningarinnar og þiggja léttar veitingar.

Frétt tekin af mbl.is (Veröld/Fólk | Morgunblaðið | 2.7.2011 | 5:30 | Uppfært 9:22)

© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband