Stálu búslóð úr bústað í Skorradal

„Það er eins og einhver hafi verið að ná sér í búslóð,“ segir Valdimar Svavarsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, en hann uppgötvaði um helgina að brotist hafði verið inn í bústað hans í Skorradal.
„Stolið var uppþvottavél, gashelluborði, örbylgjuofni, leðurborðstofustólum, tækjum, græjum, leirtaui, hnífpörum, einhverju af fatnaði og fleiru,“ segir Valdimar.

Valdimar segir að litlar skemmdir hafi verið unnar í bústaðnum. Þjófurinn eða þjófarnir hafi hins vegar ekki náð að skrúfa fyrir gasið og því hafi það lekið út. Það hafi því skapast hætta þegar það lak út.

Valdimar er áhugamaður um Bond-myndir og átti mikið safn DVD-mynda með njósnaranum góðkunna. Myndunum var öllum stolið.

Valdimar segir að sér sé ekki kunnugt um að brotist hafi verið inn í fleiri bústaði í nágrenninu. Rannsókn lögreglu hefur ekki enn skilað árangri, en Valdimar segir að ábendingar frá almenningi séu vel þegnar.

„Þetta er upplifun sem allt of margir lenda því miður í. Þetta er ömurleg reynsla,“ segir Valdimar.

mbl.is sagði frá 02.07.2012
© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband