Forsetinn vígði Pakkhúsið í Vatnshorni

Herra Ólafur Ragnar Grímsson forseti vígði Pakkhúsið í Vatnshorni í Skorradal um helgina eftir endurgerð þess.
Athöfnin var einn af hápunktum viðburða á Alþjóðlegu ári skóga hér á landi, enda er um að ræða fyrsta húsið sem alviðað er íslensku timbri og var viðburðurinn því sögulegur sem slíkur.
Skógrækt ríkisins gefur timbur frá Stálpastöðum í Skorradal til verksins, Stefán Ólafsson á Litlu-Brekku hafði veg og vanda af endursmíðinni og Unnsteinn Elíasson hleðslumeistari frá Ferjubakka sá um vegghleðslu undir
pakkh02h
úsið. Skorradalshreppur kostaði niðurtöku þess sem stóð eftir af gamla pakkhúsinu. Félagsskapurinn ,,Vinir Pakkhússins« öfluðu síðan fjár til endurbyggingar.
Í tilefni af vígslu Pakkhússins komu norskir gestir frá Skogselskapet Bergen og Hordaland í Noregi til Íslands, m.a. Loftur Þór Jónsson fylkisskógameistari á Hörðalandi, ásamt Lars Sponheim fylkisstjóra, en Bjarni Bjarnarson frá Vatnshorni (síðar kenndur við Grafarholt) var við nám í jarðyrkjuskólanum í Stend á Hörðalandi um 1880 og er talinn hafa flutt heim með sér norskt tilsniðið timbur til Pakkhússins.
Athöfnin hófst á ræðu Huldu Guðmundsdóttur, skógarbónda á Fitjum í Skorradal og framkvæmdastjóra Alþjóðslegs árs skóga hér á landi. Fór hún yfir sögu staðarins og tilurð pakkhúsins. Jón Loftsson skógræktarstjóri hélt
pakkh01
ðan ræðu og fór yfir aðkomu Skógræktar ríkisins að verkinu. Talaði hann einnig um að Skógræktin þyrfti að huga að endurgerð gamalla húsa á þeim jörðum sem Skógræktin á.
Að lokum hélt forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, ræðu. Svo skemmtilega vill til að afi Ólafs Ragnars, Kristgeir Jónsson, bjó um aldamótin 1900 í Bakkakoti sem er næsti bær við Vatnshorn og Grímur faðir hans fæddist þar, nokkru eftir að þetta elsta hús í hreppnum var upphaflega reist. Eftir að Ólafur klippti á borða og opnaði húsið kom í ljós að þar inni beið danshópurinn Sporið og kom hann þá út undir spili harmonikuleiks og dansaði gamla þjóðdansa í Vatnshorni fyrir gesti. Að lokum var síðan boðið til veislu á Fitjum í Skorradal eftir athöfnina.

Morgunblaðið 15.08.2011
© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband