Innbrot í sumarbústaði

Alls var brotist inn í átta orlofshús í Borgarfirði í liðinni viku, tvö í Húsafelli og sex í Skorradalnum. Að sögn lögreglu voru í þessum innbrotum ekki unnar meiri skemmdir en þurfti til að komast inn í bústaðina, en stolið þaðan helstu verðmætum.

Að sögn Hermundar Guðsteinssonar hjá lögreglunni á Selfossi hefur lítið verið um innbrot í sumarbústaðarlöndum á Suðurlandi í vetur en menn séu við öllu búnir. „Reynslan sýnir okkur að ef brotist er inn í sumarbústaðarland nærri höfuðborginni á einum stað, þá er stutt í það að þjófarnir leiti í önnur sumarbústaralönd nærri höfuðborginni,“ segir Hermundur.

Hann segir að vel hafi gengið að hafa hendur í hári þjófa sem brjótast inn í sumarbústaði. Oft sé það fyrir tilstuðlan eftirlits lögreglu þó stundum komi upptökur og ábendingar fólks að góðum notum. „Þetta eru oft menn sem eiga á bakinu 7-8 innbrot þegar við höfum upp á þeim. Því leysast oft fjöldi mála á einu bretti þegar við náum þeim,“ segir Hermundur.

Hann segir að gefið hafi góða raun að hafa læst hlið við innakstur að sumarbústöðum. „Menn nenna ekki að ganga langt með dótið. En svo er ágætt að benda á það að ef fólk hefur ekkert að fela, þ.e. ef bústaðurinn inniheldur ekki dýr raftæki, þá er ágætt að sýna það með því að hafa glugga frádregna. Þá sjá þjófar að ekkert sé þar að finna“ segir Hermundur.

Hann segir þjófana einblína á að stela flatskjáum, fartölvum og skjávörpum, þar sem þá er að finna. „Þetta eru auðseljanlegir hlutir,“ segir Hermundur.

Bústaðirnir í Borgarfirði sem brotist var inn í voru utan hverfa sem lokað hefur verið með símastýrðum hliðum og ekki var farið inn í bústaði sem eru með þjófavarnarkerfum. Innbrotsmálin eru til rannsóknar en enginn hefur verið handtekinn enn sem komið er.

Hjá lögreglu hefur komið fram að myndavélar í sumarbústöðum hjálpi oft við lausn slíkra mála. Hér að neðan má sjá myndbrot þar sem tveir pörupiltar kynna sér aðstæður vð sumarbústað. Það er enginn vafi á því að lögreglan verður fljót að hafa upp á þessum piltum.

mbl.is sagði frá© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband