Bjargaði þremur þegar bát hvolfdi á Skorradalsvatni

Pétur Óli Pétursson kom þremur mönnum til bjargar eftir að bát þeirra hvolfdi úti á miðju Skorradalsvatni aðfaranótt laugardags. Það var fyrir algjöra tilviljun að hann hafði sett eigin bát niður fyrr um daginn og að hann heyrði þegar slokknaði á mótornum í hinum bátnum úti á vatninu.

„Þetta var föstudagurinn 13. en 13 hefur alltaf verið happatalan mín,“ segir Pétur.

Hann segir að töluverð alda hafi verið á vatninu en samt hafi komið honum á óvart að bátnum, nýjum og breiðum vatnabát, skyldi hafa hvolft. Hann segir atvikið þarfa áminningu um að fara varlega og varar menn við því að vera á ferðinni á vatninu seint um kvöld, þegar aðrir eru gengnir til náða. Vatnið var ekki nema 4-5 gráða heitt og telur Pétur, sem ólst upp í sveitinni og þekkir vel til aðstæðna, að illa hefði getað farið ef mennirnir hefðu verið lengur ofan í.
slys
Ljósmynd Kristjána Laufey Jóhannsdóttir
„Þegar menn eru orðnir hraknir og blautir hanga þeir ekki lengi á bátskili í öldu. Og mesta hættan hefði kannski verið ef einhver þeirra hefði reynt að synda í land, því þú syndir ekkert í land í Skorradalsvatni. Það er það kalt vatnið að menn eiga ekki, að mínu mati, nema einhverjar fimmtán mínútur,“ segir Pétur. Hann segist ekki vilja hugsa til þess hvernig hefði farið ef hann hefði ekki tekið eftir því þegar slokknaði á mótornum.

„Þeir lentu allir í vatninu og það voru allir símar dauðir hjá þeim. Og það var enginn bátur tiltækur í svona 5 kílómetra radíus. Þannig að það er eiginlega bara himnafaðirinn sem getur svarað því hvað hefði gerst,“ segir hann.
mbl.is sagði frá 17.07.20121
© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband