Húsin í sókninni

Vefstjóri brá sér á listsýningu í vikunni. Það er kannski ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þessi sýning er hér í Skorradalnum. Um er að ræða sýninguna „Húsin í sókninni“ í Gallerí Fjósakletti á Fitjum í Skorradal. Þetta er samstarfsverkefni eigenda Fitja og listamannsins Gunnlaugs Stefáns Gíslasonar sem sýnir vatnslitaverk af öllum 20. aldar íbúðarhúsum í Fitjasókn. Jafnframt var opnuð ljósmyndasýning auk sýningar þar sem gestir geta séð hvernig Skemman á Fitjum hefur verið klædd innan með skífum úr ungskógi á Fitjum og greni frá Stálpastöðum.

Hér að ofan sést vatnslitamynd listamannsins af íbúðarhúsinu í Hvammi. Það mun hafa staðið þar sem hús Skógræktarinnar stendur. Í sýningarskrá segir: Húsið var byggt 1925, en er nú fallið. Ágúst Árnason skógarvörður Skógræktar ríkisins og Ólöf Svava Halldórsdóttir höfðu fasta búsetu frá 1959 til 2000, en Hannes Árnason og Halldóra Ólafsdóttir voru síðustu bændurnir í Hvammi, frá 1950 til 1957. Tölusettar eftirprentanir af listaverkunum eru til sölu og kostar hvert eintak einungis 5.000 kr.


Sýningin verður opin til 15. september frá kl. 14:00 til kl. 18:00 alla daga vikunnar nema mánudaga og þriðjudaga. Hvetur vefstjóri sem flesta til að skoða þessa merku sýningu. Bæði listamaðurinn og aðstandendur sýningarinnar eiga heiður skilið fyrir þetta merka framtak.

Afrit af sýningarskrá má nálgast hér.
© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband