Selja bústaði eftir innbrot

Öryggishlið við sumarbústaðalönd vegna tíðra innbrota Innbrot fá á fólk. Vilja auka enn öryggisbúnaðinn og óttast að innbrotum haldi áfram að fjölga.
Innbrot í sumarbústaði geta gengið nærri fólki og að sögn Theódórs K. Þórðarsonar, yfirlögregluþjóns í Borgarnesi, eru allmörg dæmi um að fólk hafi selt sumarbústaði sína í kjölfar innbrota.
Sumarbústaðaeigendur í Hvalfjarðarsveit og Skorradalshreppi hafa margir eflt öryggisvarnir við sumarbústaði sína til muna, komið fyrir hliðum og jafnvel eru dæmi um að þeir hafi sett öryggismyndavélar við hliðin.
Eftir hrinu innbrota í sumarbústaði á svæðinu í fyrrahaust kvíða margir sumarbústaðaeigendur haustinu. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er í þeirra hópi rætt um að taka höndum saman og auka enn þjófavarnir með fleiri öryggishliðum og öryggismyndavélum við sumarbústaðahverfi. Theódór, yfirlögregluþjónn í Borgarnesi, segir að best sé ef þetta tvennt fari saman því myndir úr öryggismyndavélum komi oft í góðar þarfir.
Theódór segir innbrotum í sumarbústaði hafa fjölgað í fyrra og líkur séu á því að meira verði um þau í ár. Að jafnaði var brotist inn í um 30-40 bústaði í umdæmi lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum á ári fram til ársins 2010. Í fyrra var brotist inn í 78 og það sem af er þessu ári eru innbrotin orðin 47. Lögreglu hafi tekist að upplýsa stærstu innbrotahrinurnar síðastliðin ár sem slegið hafi á innbrotin þar til í fyrra að þau keyrðu úr hófi. Theódór leggur áherslu á að nágrannavarslan sé virk og að fólk sameinist um sameiginlegar forvarnir gegn innbrotum.

Morgunblaðið sagði frá 24.10.2011
© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband